Ávarp formanns, ISAD 2020 – Alþjóðlegum vitundarvakningardegi um stam

Kæru félagar, kæru landar, til hamingju með daginn! Í dag, 22. október, er alþjóðlegur vitundarvakningardagur um stam. Mikilvægur liður í slíkri vitundarvakningu eru störf í þágu viðhorfsbreytinga til stams og fólks sem stamar. Í hartnær 10 ár hef ég starfað sem sjálfboðaliði á þessu sviði. Ég tók við sem formaður Málbjargar, félags um stam fyrir nokkrum árum og tók virkan þátt í skipulagningu heimsráðstefnu um stam árið 2019. Sama ár gekk ég í stjórn alþjóðlegra stamsamtaka. Meðfram stjórnarstörfum vinn ég að skandinavískum og samevrópskum verkefnum um valdeflingu ungs fólks annarsvegar og aðgengi að samskiptatækni hinsvegar.

Þegar ég lít tilbaka, get ég ekki sagt að aktívismi eða réttindabarátta hafi verið mér ofarlega í huga þegar ég rak feimin inn nefið á mínum fyrsta fundi hjá Málbjörgu, vorið 2011. Mér fannst eins og ég hefði ekki neitt til að berjast fyrir sérstaklega, ég var fyrst og fremst að leita að öðru fólki sem stamaði sem skildi það sem ég væri að ganga í gegnum. Mér fannst ég vera einangruð og ein með stamið mitt og var fyrst og fremst að leita að félagsskap, einhverskonar samfélagi. Í Málbjörgu fann ég það sem ég leitaði eftir en líka svo miklu meira, ég lærði ótal margt sem ég bý að enn í dag.

Í gegnum starfið hef ég fengið innsýn inn í heim mannréttinda og fötlunar sem hefur aftur styrkt sannfæringu mína um að tala fyrir málstað sem skiptir konu máli. Í starfinu hef ég farið út fyrir þægindarammann og öðlast sjálfstraust. Ég hef stökkt út í djúpu laugina og gert hluti sem ég hefði aldrei ímyndað mér að ég gæti gert, eins og að fara í sjónvarps- og útvarpsviðtöl. Þegar ég hef verið kvíðin fyrir því að koma fram, hef ég minnt mig á það að ég er ekki aðeins að gera það fyrir sjálfa mig, heldur fyrir aðra sem stama.

Því opnari sem ég er með stamið og því meira sem ég umgengst annað fólk sem stamar, því meira hef ég eflst í réttindabaráttunni. Áður en ég var kjörin formaður hafði ég litið á sjálfa mig sem baráttukonu á hliðarlínunni en eftir að ég tók við formennsku félagsins fyrir nokkrum árum, hefur ekki verið aftur snúið. Ég hef smám saman gert mér grein fyrir því hvernig orð mín og gjörðir skipta máli fyrir fólk í kringum mig – að horft sé til þess hvort ég stami óhikað og berjist gegn fáfræði og mismunun.

Að berjast fyrir málstað, sem er stærri en við sjálf er magnað. Að klífa tindinn – jafnvel þegar við treystum okkur ekki fullkomlega til þess – að gera það samt því það er það eina rétta í stöðunni. Að sjá aðra öðlast hugrekki til að elta drauma sína gefur baráttunni okkar gildi. Þegar stam er orðið eðlilegasti hlutur í heimi, er baráttan unnin.

Sigríður Fossberg Thorlacius
Formaður Málbjargar
22. október 2020