Hvað vitum við um stam?
Stam hefur verið þekkt frá fornu fari og er líklega það talmein sem er þekktast og mest rannsakað. Jafnvel er talið egyptar hafi átt tákn yfir stam. Forn grikkir veltu stami fyrir sér og Aristoteles taldi (um það bil 350 f.kr) að stam stafaði af því að tungan fylgdi ekki þeim boðum sem hugurinn gaf. á þessari öld hafa komið fram ýmsar kenningar um eðli stams, og orsakir þess s.s. taugafræðilegar, sálrænar og atferlisfræðilegar án þess þó skýra þetta fyrirbæri til hlýtar.
Gutzmann þýskur læknir var einna fyrstur manna til að lýsa stami á fræðilegan hátt. Hann sagði stam einkennast af ósjálfráðum krampakenndum vöðvasamdrætti í talfærunum það er að segja, öndun, rödd og framburði.
Emil Froschels vakti athygli á að stam gæti verið lært atferli. Við athugun á tali forskólabarna taldi hann að um 70% þeirra ættu það til að hökta eða endurtaka orð eða setningar við frásögn. þetta hökt þróaðist síðan út í stam þegar foreldrar væru að reyna að fá barnið til að segja orð aftur sem það gæti ekki sagt. Við það yrði barnið meðvitað um að það ætti í erfiðleikum með að tala og stam þróaðist upp úr því. Kenningar um að stam ættu sér sálrænar orsakir voru algengar upp úr 1930.
Talið var að stam hefði þróaðist út frá ómeðvitaðri baráttu barnsins yfir ófullnægðum kynferðislegum þörfum. Travis 1931 og fleiri settu fram kenningar um ríkjandi heilahvel og stam. þeir töldu að stam stafaði af því að þeir sem stömuðu hefðu ekki ríkjandi heilahvel. Hreyfingar talfæra yrðu óskipulagðar við samkeppni heilahvelanna um hvort þeirra ætti að ná yfirhöndinni.
Hugmyndir Van Ripers voru af öðrum toga. Hann var ekki mikið að velta fyrir sér orsökum stams en taldi að það þróaðist smátt og smátt. á fyrsta stigi stams væru spennulausar endurtekningar algengar en á öðru stigi stams væri stamið orðið meðvitað og aukin spenna í talfærum. Hann taldi að það skipti mestu máli að barnið yrði ekki gert meðvitað um höktið og að besta meðferðin fyrir börn væri ef foreldrar létu barnið vera.
Orsakagreining kenning (diagnosogenic) Johnsons er mjög hliðstæð hugmyndum Van Ripers en samkvæmt henni þróast stam vegna þess að foreldrar voru ofur viðkvæmir fyrir því hvernig börn þeirra töluðu. þeir voru haldnir fullkomnunaráráttu bæði fyrir sig og börnin sín og með því að draga athygli barnsins að því að það talaði ekki fullkomlega leiddi það til þess að barnið byrjaði að stama. Fræg eru orð hans um að stam hjá barni byrjaði „í eyrum foreldra en ekki í munni barnsins“.
Hugmyndir Johnsons höfðu mikil áhrif á hugmyndir manna um stam og höfðu mikil áhrif á rannsóknir um stam. Sýnt var fram á að foreldrar barna sem stömuðu voru stjórnsamir, ofverndandi með of miklar kröfur og haldnir fullkomnunaráráttu fyrir hönd barna sinna. Wingate og Ingham bentu á að þessar kenningar gætu varla staðist þar sem algengt væri hjá börnum á forskólaaldri að stam hætti, oft jafn snögglega og það byrjaði. Goldiamond (1965) uppgötvaði að með því að nota seinkaða heyrnræna svörun ( delayed autitory feedback , DAF) hættu þeir að stama sem stömuðu annars. Þessi uppgötvun leiddi til meðferða sem byggðu reiprennandi tali eins og að stjórnun talhraða og að lengja hljóðin sérstaklega sérhljóðin.
Í kjölfarið fylgdi fjöldinn allur af atferlismeðferðum við stami og af atferlisfræðilegum rannsóknum á stami. Tiltölulega auðvelt virtist vera að ná reiprennandi tali við afmarkaðar aðstæður. það sem var sameiginlegt með þessum meðferðum var að langtímaárangur í flestum tilfellum var takmarkaður.
Síðustu ár hefur athygli manna beinst í auknum mæli að taugafræðilegum þáttum tengdum stami án þess að finna viðhlýtandi skýringar á því.
Fræðimenn skoða nú í vaxandi mæli erfðafræðilega þætti orsakaskýringu á stami. Flest bendir til að stam sé margþætt vandamál og við meðhöndlun þess verði að taka tillit til fjölmargra þátta eins og hreyfinga talfæra, tals,tilfinninga og vitrænna þátta. (Dæmi um slíkar kenningar eru kenningar Kelly og Smith, Starkweathers og fleiri). Tíðni stams Erlendar rannsóknir benda til þess að algengi stams sé um 1% . Hins vegar hækkar tíðnitalan upp í 5% ef taldir eru með allir þeir sem hafa nokkru sinni stamað.
Meðal ungra barna er þekkt að stamið lagist algerlega eða að hluta og eru ástæður þess óþekktar. Talsverður munur er á tíðnitölum á slíku allt frá 34% en nýrri og áreiðanlegri rannsóknir sýna tíðnitölur á bata allt upp í 79%. Hjá mjög mörgum þessara barna hættir stamið áður en skólagöngu er náð og talið er að langflestir hafi hætt að stama þegar fullorðins aldri er náð. Meðal ungra barna er kynjabundin munur 2 drengir á móti einni stúlku en meðal fullorðina eru 4-5 sinnum fleiri karlmenn sem stama en konur. þetta bendir til þess að mun fleiri stúlkur hætti að stama en drengir. Meðal fræðimanna eru getgátur um að þessi kynjabundni munur geti verið tengdur arfgengi stams. íslenskar rannsóknir á tíðni stams eru fáar.
Rannsókn byggð á spurningarlista til kennara grunnskólabarna bendir til að um 1% skólabarna stama og könnun sem var gerð meðal 165 leikskólabarna í Reykjavík sýndi að um 6% barnanna höfðu einhverntíma hökt í lengri eða skemmri tíma en einungis um 1 % barnanna stömuðu eða höktu alltaf.