Hverjar eru orsakir stams?
Engin einhlít skýring er til á því hvers vegna fólk byrjar að stama. Ýmsar kenningar eru til en ekkert hefur verið sannað þrátt fyrir miklar rannsóknir.
Hversu algengt er stam?
Erlendar athuganir hafa sýnt að á bilinu 0,7% – 1,0% fólks stami. Það má því reikna með því að á bilinu 1800-2500 Íslendingar stami. Talið er að fjögur af hverjum hundrað börnum byrji að stama en þrjú þeirra hætti því áður en þau komast á fullorðinsár. Flestir byrja að stama á aldrinum 3 – 7 ára og stam er 3 – 4 sinnum algengara hjá körlum en konum.
Hvernig er stam meðhöndlað?
Það er engin töfraaðferð til við stami, en almennt má segja að því fyrr sem eitthvað er gert í málinu, því betra. Hjá ungum börnum er fyrst og fremst um að ræða óbeina meðferð sem felst m.a. í upplýsingum og ráðgjöf til foreldra og starfsfólks skóla og leikskóla. Hin síðari ár hefur bein meðferð barna þó færst í vöxt erlendis með góðum árangri. Hjá eldri börnum, unglingum og fullorðnum er aðallega um beina meðferð að ræða. Þar er átt við talkennslu- og þjálfun sem getur verið með ýmsu sniði.