Stam skólabarna

Börn sem stama þegar komið er á grunnskólaaldur eru líklegri en yngri börn til að þurfa að glíma við þennan vanda fram á fullorðins ár.

Rannsóknir hafa sýnt að því seinna sem börn byrja að stama, því meiri líkur eru á að stamið sé varanlegt. Það er því mikilvægt á þessum aldri að grípa strax til viðeigandi ráðstafana og reyna að koma í veg fyrir að stamið þróist og festist.

Rétt er að leita ráða hjá talmeinafræðingi strax og stams verður vart.

Mjög algengt er að börn á þessum aldri vilji ekki ræða um stamið. Þau hafa um margt annað að hugsa en hvernig þau tala. Mikilvægt er þó að ræða við barnið um stamið á jákvæðan hátt þannig að það finni stuðning.

Stam er ekki feimnismál. Ef stamið er ekki rætt getur barninu fundist það vera að gera eitthvað sem það má ekki. Gott er til dæmis fyrir kennara að ræða óhikað um stamið við barnið sem stamar og spyrja það hvernig því finnist best að kennari hagi sér varðandi það.

Börn í skóla geta yfirleitt lesið í kór án erfiðleika og er það gott ráð ef barn á erfitt að lesa upphátt að spyrja það hvort það vilji að einhver lesi með því í kór. Jafnvel er stundum hægt að láta allan bekkinn lesa í pörum. Ef barnið stamar mikið er mjög brýnt að sýna barninu jákvæðan stuðning án þess þó að hlífa því.

Gott er að gefa barninu nægan tíma til að tjá sig og fullvissa það um að engin muni taka orðið af því. Mikilvægt er að viðurkenna stamið sem fötlun og að haga kennslunni í samræmi við getu og þarfir barnsins sem stamar eins og annarra. Ekki er gott að láta þau bíða of lengi eftir að röðin komi að þeim.

Börn á grunnskólaaldri sem stama þurfa stuðning foreldra sinna, kennara og samnemenda. Talþjálfun nýtist mjög vel þó hún sé ekki eins árangursrík og hjá leikskólabörnum.

Scroll to Top