Hvað er dulið stam?
Sumt fólk sem stamar leggur mikið á sig til að forðast að stama fyrir framan aðra. Kynntu þér hvers vegna og áhrifin sem þetta getur haft.
Það er ekki alltaf augljóst að einhver stami
Það er vegna þess að mikið af fólki sem stamar finnur leiðir til að draga úr því eða fela það – ef það getur – stundum eða alltaf. Ein af ástæðunum fyrir því að fólk gerir þetta er til að forðast neikvæð viðbrögð ef það stamar.
Það gæti:
- forðast að nota ákveðin orð.
- skannað setningar fyrirfram í huganum eftir hljóðum sem það gæti stamað á.
- skipt út orðum sem það er hrætt við fyrir önnur sem auðveldara er að segja.
- reynt að fela það þegar það fer að stama með því að láta eins og eitthvað annað sé að gerast.
- sagt minna.
- forðast ákveðnar aðstæður sem það veit að það mun eiga erfitt með.
Sumir leggja mikið á sig til að enginn komist að því að þeir stami. Þeir gera svo mikið af hlutunum sem taldir eru upp hér að ofan að það gæti verið að þú heyrir þá bara alls ekki stama. Þeir geta komið fyrir eins og manneskja sem talar án vandræða. Þetta er stundum kallað „dulið“ stam eða „innhverft“ eða „falið“ stam.
Tilfinnanleg áhrif
Ef stam einhvers er ekki augljóst getur það samt verið manneskjunni mjög hugleikið. Að gera allt sem þú getur til að stama ekki getur verið mikil vinna. Það er tilfinningalega hlið málsins sem er lykilatriði hér. Neikvæðu hugsanirnar, tilfinningarnar og stöðuga vinnan við að fela stamið.
Manneskja sem virkar eins og hún geti talað án vandræða þótt hún stami gæti:
- fundið fyrir sterkum neikvæðum tilfinningum varðandi stam.
- haft áhyggjur af því að fólk komist að því að hún stami.
- fundist hún stöðugt óróleg og stressuð yfir þörfinni til að forðast stam.
- haft fáa í lífi sínu sem vita að hún stamar.
- skammast sín fyrir það sem hún lítur á sem sitt „leyndarmál“.
Ef þú stamar en kemur fyrir eins og þú getir talað vandræðalaust getur það verið erfitt fyrir annað fólk að skilja hvernig þér líður. Fólk gæti fullvissað þig um að það hafi ekki haft hugmynd um að þú stamaðir svo það „getur ekki verið svo slæmt“. Þetta getur látið þér líða eins og þú sért að gera óþarfa mál úr hlutunum.
Í einhverjum tilfellum gæti þér hafað tekist það vel að fela það að fólk trúir alls ekki að þú stamir. Þetta getur verið mjög pirrandi og sársaukafullt, þar sem það gerir í raun lítið úr upplifun þinni. Þó stamið þitt sé falið þýðir það ekki að það hafi ekki áhrif á þig.
Þýtt af síðu STAMMA, bresku stam samtakanna – stamma.org.