Stam fullorðinna

Það er mjög sjaldgæft að fólk byrji að stama eftir kynþroska, þess eru þó dæmi. Einstaka byrja að stama við tímabundið álag eða sálræna erfiðleika.

Einnig getur fólk byrjað að stama í kjölfar taugasjúkdóma, t.d. parkinson eða í kjölfar heilablóðfalls. Í þessum tilvikum ætti að leita til talmeinafræðings.

Flestir sem stama á fullorðinsaldri þurfa að glíma við stamið það sem eftir er. Þó er algengt að fólk nái nokkrum tökum sjálft á talinu. Mikilvægt er að láta stamið ekki ráða ferðinni varðandi starfsval, heldur ættu áhugi og aðrir hæfileikar að vega þyngra.

Í meðferð hjá talmeinafræðingum eru tvenns konar aðferðir notaðar. Annars vegar eru það meðferðir sem byggjast á að ná betri talleikni. Hins vegar að sætta sig við að stam er til staðar og vinna með spennu í talfærum og öðru sem fylgir staminu, svo sem ótta og kvíða.

Flest allir reyna að samtvinna þessar meðferðir. Ekki hafa enn fundist lyf sem lækna eða bæta stamið.

Scroll to Top