Ertu að leita að lækningu við stami?
Er til lækning eða skyndilausn sem mun losa mig við stam?
Er hægt að „sigrast“ á því eða stöðva það?
Er hægt að lækna stam?
Það er spurning sem við fáum oft. Stutta svarið er nei, það er engin „kraftaverkalækning“ sem getur stöðvað stam.
Þú gætir séð auglýsingar á netinu fyrir námskeið eða pillur sem segjast lækna eða stöðva stam. Vertu á varðbergi gagnvart þeim. Þó að ákveðnir hlutir geti dregið úr stami hjá sumum er ólíklegt að það hverfi alveg. Það er engin varanleg lausn til.
Hins vegar eru til leiðir til að hjálpa fólki að stjórna staminu sínu og læra að tala á auðveldari hátt.
Meðferð og námskeið
Tal- og málþjálfun eða öflug námskeið geta hjálpað til við að ná stjórn á stami. Þau geta:
- kennt tækni sem miðar að því að tala á yfirvegaðan hátt.
- hjálpað til við að takast á við neikvæðar tilfinningar sem þú eða barnið þitt gætu haft varðandi stam.
- hjálpað þér eða barninu þínu að eiga samskipti með auknu sjálfstrausti.
Athugið: meðferðir og námskeið eru ekki lækning eða skyndilausn við stami. Það þarf stöðuga vinnu og skuldbindingu svo þau nýtist til að hjálpa við stam.
Einnig virka mismunandi hlutir fyrir mismunandi fólk, þannig að ef einn valkostur hentar þér ekki, þá er það ekki þér að kenna. Prófaðu einn af hinum valkostunum og finndu þann sem hentar þér. Bara ekki búast við því að það töfri stamið í burtu.
Hættir stam?
Um það bil 8% barna stama. Sum munu hætta að stama þegar þau eldast, en það á ekki við um öll börn. Það er engin leið að vita hvaða börn munu hætta að stama og hver munu halda áfram. Sjá Hvað er stam? fyrir frekari upplýsingar.
Ef einhver stamar til fullorðinsára er líklegt að hann haldi því áfram alla ævi. En þetta þarf ekki að vera eitthvað til að hafa áhyggjur af. Stamið verður ekki alltaf eins. Stam getur breyst. Það koma heil tímabil þar sem fólk stamar minna og tímabil þar sem það stamar meira.
Sumum finnst þeir stama minna eftir því sem þeir eldast. Hjá öðrum gæti stamið hætt næstum alveg og byrjað aftur mörgum árum síðar.
Ef stam byrjar á fullorðinsárum getur það breyst með tímanum eftir því hvað olli því.
Að "Sigrast á" stami
Þú gætir velt því fyrir þér hvort það sé hægt að „sigrast á“ stami. Þetta er skiljanlegt þar sem sjónvarpsþættir, kvikmyndir og fréttir sýna oft fólk sem fer í „vegferð“ til að „sigra“ stamið. En þetta er villandi. Það gefur í skyn að fólk sem stamar geti læknast ef það leggur bara nógu mikið á sig.
Jú, vissulega getur fólk sigrast á ótta sínum varðandi stamið. Það gæti fundið til meira sjálfstrausts í tengslum við það og því stamað minna með tímanum. En það hverfur aldrei alveg. Ef þú ert að nota tækni þarftu að halda áfram að nota hana. Að sigrast á óttanum mun ekki lækna stam, þar sem þú getur ekki sigrast á staminu sjálfu.
Þýtt af síðu STAMMA, bresku stam samtakanna – stamma.org.